December 30, 2007

2007 hjá Tröllakórsfjölskyldunni

Þetta ár hófst rólega í Brekkuselinu. Upphaf árs einkenndist af brúðkaupsundirbúningsstressi. En skv. öllum leiðarvísum þá vorum við orðin allt of sein að öllu. Hugmyndir í upphafi árs voru mjög hógværar. Heimatilbúinn matur, blár kjóll, tölvutónlist og félagsheimilið Fannahlíð. Stressið bar hógværðina yfirliði, og var ákveðið að kíkja í brúðarleigur til að sjá hvort maður gæti sætt sig við eitt hvítt stykki. Ég fann þar mjög hógværan kjól, en samt hvítan. En valið stóð á milli hans og annars sem var ekki svo mikið látlaus.

Heimatilbúni maturinn breyttist svo í grillveisluþjónustu. Við fundum hestvagn sem átti að bera brúðina í kirkju. Allt var þetta að smellla.

Í maí fengum við loksins já frá eigendum Skessubrunns. Án þess að vera búin að skoða, tókum við hann fram yfir hinn látlausa sal Fannahlíðar.

Í júni fékk maður svo að kenna á því, og var gæsin gripin og klædd upp í viðeigandi. Jú gæsapartíið var fámennt en góðmennt. Og var stuð en hæfileg rólegheit allan daginn. Kallinn fékk svo sitt viðeigandi partí í kjölfarið. En það einkenndist af aðeins meiri látum, en allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó.

Þetta endaði svo allt í flottheitum 21. júlí 2007. Látlausi kjóllinn vékk fyrir hinum íburðameiri. Og blómin sem áttu ekki að fylgja voru komin í hendurnar. Hestvagninn breyttist í bens. Tölvan breyttist í hljómsveit. Útibrúðkaupið endaði inni í steikjandi hita og raka. Þetta var besti dagur lífs okkar beggja. Allt gekk upp sem átti að ganga upp, hitt mun bara gleymast með tímanum :-)

Árið einkenndist af stórafmælum.

Í febrúar var loksins haldið upp á 50 ára afmæli mömmu, daginn fyrir 51 árs afmælið. Við náðum að gabba hana upp úr skónum og hélt hún að hún væri að fara út að borða með stelpunum, en endaði heima hjá sér þar sem karlpeningurinn var búinn að elda smá.

Svo héldu vinkonurnar hver í kappi við aðra upp á 30 ára afmælin sín. Ég varð sjálf 30 ára, og fékk ég stærstu og óvæntustu afmælisgjöf, sem ég hefði getað ímyndað mér. Limmó, dekur, þyrla og hótel út í sveit með draumaprinsinum. Gæti ekki hafa verið betri leið til að verja afmælisdeginum.

Pabbi gamli varð svo 60 ára í september, sem var auðvitað haldið með pompi og prakt. Gaman að hitta fullt af fólki sem maður hefur ekki séð lengi.

Litli brósi og Lilja giftu sig svo í september. Brúðkaup þeirra var alveg einstakt, alveg eins og þeim er einum lagið.

Í júlí kom í ljós að lítið kríli var að hreiðra um sig í vömbinni minni. Alveg planað reyndar, en kom reyndar undir á æfingartímabili, sem var reyndar ekkert verra. Spilaði bara pínu inn í brúðkaupið.

Við fengum svo afhenta langþráða íbúð í Tröllakór í september. Stóri strákurinn lagðist á 4 fætur og lagði gólfefnin, meðan húsfrúin beið spennt heima. Parketið mjakaðist áfram, en að lokum var flutt inn. Í rólegheitunum komum við okkur fyrir, og kláruðum að lokum parketið. Daginn eftir var ákveðið að halda sundlaugapartí á hæðinni, en það stóð hvergi á leiðbeiningum að parketið væri ekki vatnshelt. Sem betur fer fór betur en leit út í fyrstu.

Ég fór í nýtt starf hjá Glitni eftir sumarfrí. En óléttan er ekkert búin að vera auðvelda það starf mikið. Ég hef því miður ekki nýst eins vel og skyldi. Heilsan var frekar slæm til að byrja með, en með hjálp nálastungu, er ég miklu betri en ég var.

Af Ara Þresti er kannski ekki mikið að frétta. Hann fékk hlaupabóluna í maí. Það var ekki tekið út með sældinni. Hann fékk ekki mikla athygli á þessu ári, enda foreldrarnir uppteknir í lífsgæðakapphlaupi. En hann tók út alveg gríðarlega mikinn félagslegan þroska og fékk eigið herbergi. Svo núna fyrir jól hætti hann í leikskólanum sínum Hálsakoti.

Hafið það gott 2008, ég veit allavega að ég hlakka mikið til.

kv. Elsa 30v

January 21, 2007

2007 stefnir í gott ár

Skrifuðum undir kaupsamninginn á föstudaginn, þvílík hamingja, staðfest á pappír að við höfum eignast okkar fyrstu fasteign. LOKSINS kominn inn á fasteignamarkaðinn, hefur kostað okkur mikla þolinmæði, en svo sannarlega borgað sig.
Fórum strax að skoða innréttingarnar, blöndunartækin, eldhústækin, flísarnar og baðkarið. Sjáum strax að við þurfum mjög líklega að fjárfesta í stærra baði, Húsvirki fór svoldið ódýrt með því vali. Annað var nú nokkuð ásættanlegt. Valið á við fyrir innréttinguna erum við Elsa nokkuð sammála um. Kirsuberjaviðurinn lítur að okkar mati best út. Valið stendur á milli kirsuberjaviðs, eikar, beiki og maghony.

Annars var helgin nokkuð góð, föstudagurinn var fínn, Elsa bauð okkur feðgunum góðan bóndadag og bauð okkur um kvöldið út að borða á Eldsmiðjuna. Seinna um kvöldið fór ég til Ómars í póker þar sem kvöldið endaði snögglega hjá mér þegar bara "allt í einu" mér fór að líða eitthvað illa og fór heim. Ómar sagði mér svo að ég ásamt ónefndum manni hefðum tveir staðið uppi með spilapeningana(reyndar ég með mun minna en þessi ónefndi).
Laugardagurinn gat ekki byrjað betur þegar Chelsea var lagt af Liverpool(ég fagna ekki oft þegar livpool gengur vel en þetta var sætt). Svo var Ástralíu skellt af Íslandi. Um kvöldið fórum við í "Thanskgiving" kvöldverð hjá yfirmanni Elsu. Frábær framleiðsla að vanda hjá þeim.
Sunnudagurinn var kannski meira svarti dagur helgarinnar. Ísland tapaði, ManUtd tapaði(naumlega) og ég fékk 6 stig af 14 mögulegum í fótboltanum. En ég fékk gleðifréttir meðan ég horfði á leik ManUtd og Arsenal þannig að dagurinn reddaðist, reyndar bara staðfesting á því að árið 2007 lítur út fyrir að verða frábært ár fyrir mig og mína fjölskyldu.

Elsa er farin í háttinn og ég ætla að elta hana.

January 07, 2007

1. árs ammæli

Nú er ég búinn að vera með bloggsíðu í eitt ár. 28 færslur hafa litið dagsins ljós.

Þetta hófst allt saman með áskorun og ákveðnum kaflaskilum. Þrítugsaldurinn færðist yfir með tilheyrandi glensi félaganna. En svo fóru þeir á fertugsaldurinn og hefndist þeim fyrir þeirra glens. Aðrir fá sinn skammt þegar þeirra tími kemur!!!

Annars héldum við Elsa upp á 31. dag ævi minnar með því að skreppa á Lækjarbrekku. Þann stað mæli ég eindregið með. Við fengum okkur sitthvora réttina. Elsa bragðaði á humarveislu, sem samanstóð af frábærri humarsúpu, þeirri bestu sem við höfum smakkað. Í aðalrétt fékk hún þrjár tegundir af humar, djúpsteiktan(sístur af þeim þremur sem hún fékk), í tartalettu með grænmeti og sósu(virkilega girnilegt og bragðgott, kom sérstaklega á óvart hvað aspars kom vel út með þessum rétti) og svo var það grillaðir humarhalar(sem var langbesti rétturinn, heppnaðist eins og best verður á kosið).
Ég lagði í 4 rétta val kokksins á forrétti. Það samanstóð af lambatrufflé(of sætt með lambi fyrir minn smekk), hörpuskel(klikkar aldrei), reiktur lax(góður, en mjög plain) og svo hreindýra carpaccio(virkilega gott með kettasalati og sjávarsalti). Í aðalrétt fékk ég svo hreindýrasteik. Hún var sérlega bragðgóð og var vel úti látin eins og flestir af þeim réttum sem við fengum. Það fór á endanum þannig að ég leyfði helmingi af mínum rétti og Elsa kláraði um 3/4 af sínum, ég kláraði svo hennar disk, til að fá smakk.
Í eftirrétt fékk Elsa sér ís og ég djúpsteiktan camembert(sem var óvenjulega gott).
Þjónustan var einnig frábær. Af 5 stjörnum segi ég að Lækjarbrekka fái 4,5.
Hefði ekki getað hugsað mér betri stað til að halda uppá ammlið mitt.

December 22, 2006

Brekkuselsfjölskyldan að breytast í .....

Tók smá pásu í skrifum vegna anna í vinnunni og heima fyrir.

Nú eru smá breytingar í vændum hjá okkur í Brekkuseli.
Mánudaginn 4. des sá Elsa auglýsingu á mbl.is/fasteign. Þar sá hún íbúð sem verður afhent í sept/okt. Við kíktum á málið og ég hringdi í Húsavík(fasteignasöluna), þá var íbúðin seld. Við erum að tala um ódýrar íbúðir miðað við fermetra. Við skoðuðum aðrar íbúðir og ákváðum að tékka á tveimur 4ra herbergja íbúðum. Önnur var seld þegar við sendum fyrirspurn og þá var bara efsta hæðin eftir. Eftir smá umhugsun ákváðum við að senda inn kauptilboð, sem var samþykkt um leið. Þá var erfiðasti hlutinn eftir, þ.e. að fá greiðslumat. Mánudaginn 18.des fórum við á fund í Glitni þar sem öll gögn voru sett fram, engar tilfærslur á eignum, eða eitthvað fiff, bara allt lagt á borðið. Vægast sagt þá komum við mjög neikvæð frá þessum fundi og dagurinn nánast ónýtur. Sáum draumaíbúðina hverfa sjónum okkar. Næstu dagar fóru í stress og neikvæðni, en reyndum að fela það eins og við gátum.
Svo í morgun(föstudaginn 22. des), þá var ég á fundi í TS og fékk sms frá Elsu. Í því sms-i fékk ég þau skilaboð að: "Fengum greiðslumatið :-)" Ég gat ekki einbeitt mér meira á þeim fundi og stóð hann í klukkutíma til viðbótar. Þessar fréttir eru langbestu fréttir sem við gátum fengið núna um jólin. Elsa má alveg sleppa því að gefa mér gjöf, íbúð er alveg nóg.
Tröllakór 6-10 er framtíðarhúsnæði Brekkuselsfjölskyldunnar og munum við fá íbúðina afhenta sept/okt. Hægt er að sjá tölvumyndir á þessari vefslóð: http://www.husvirki.is/verk/trollakor/

Bendi svo á bloggið hennar Elsu ef menn vilja lesa hennar hlið á þessari upplifun í dag.

Gleðileg jól allir vinir/ættingjar og aðrir lesendur.
Tröllakórsfjölskyldan

November 20, 2006

8 vikur liðnar

Já það var sprennuþungin síðasta vika.
8 vikna líkamræktarkeppninni lauk á föstudaginn með hátíðlegri athöfn á Argentínu steikhúsi.
Þar voru úrslitin kynnt af Sölva Fannari einkaþjálfara.
Hann byrjaði á því að hrósa okkur fyrir frábæran árangur og eiginlega einstakan árangur, þar sem hann sagðist ekki hafa séð svona flottan árangur.
En mín niðurstaða var sú að ég lækkaði mína fituprósentu úr 24,62% í 16,82%, eða lækkun upp á 7,8%. Hann nefndi svo að þetta þýddi 37,3% prósent lækkun á fitumassa. Þyngdin lækkaði úr 86,3 í 79,8 kg. Þetta þýðir að ég jók vöðvamassann um 1,4 kg.
Tvær mælingar voru gerðar á ummáli, þ.e. mjaðmir og mitti.
Mjaðmir fóru úr 106 cm í 101 cm.
Mitti úr 97 cm í 93 cm.

Þetta er frábær árangur þó ég segi sjálfur frá og myndi duga til sigurs í flestum keppnum, en í þessari keppni dugði þetta í 4.sæti :-( Sigurvegarinn, Ingþór, lækkaði fitumassa sinn um 50% fór úr 22% í 12% og 2.sætið fór úr 9,9% í 5,4%(sem er náttúrulega bara brjálæði), hann heitir Örn.

Fréttahorni lýkur hér með.

November 02, 2006

Sílikonbrjóst borga sig upp á 2 árum!!!!!!

Verð að deila þessari grein með ykkur.
Greinarhöfundur er viðskiptafræðimenntaður og nam viðskiptafræði í HÍ á sama tíma og ég.
Þetta er með skemmtilegri umræðum um sílikonbrjóst og rösktuðning við þeim sem ég hef séð.

http://www.deiglan.com/index.php?itemid=10531

October 30, 2006

Vísó og Mýrin

Vísindaferð

Þegar við fórum á Haustdaginn í síðasta mánuði, þá galgopaði ég við annan mann um hversu mikilvægt væri að vanda sig við undirbúning á Vísindaferð. Strax vikuna á eftir vorum við Örn boðaðir á fund þar sem við fengum það verkefni að undirbúa vísindaferð. Nemendur tölvunarfræði HR og HÍ voru á leiðinni. Við lögðum til að framkvæmdastjórinn myndi stytta fyrirlestur sinn úr 20-25 mín í 10-15 mín. Í aðrar 10-15 mín lögðum við til að stm myndi segja frá því hvað er gaman að vinna hjá fyrirtækinu og hvað fyrirtækið gerir fyrir stm. Svo þarf að vera nóg af mat og mikið úrval af áfengi. Svo settum við upp íþróttamót fyrir nemendurna. Skemmst er frá því að segja að þetta gekk eins og í sögu, þau meira segja canceluðu rútu sem átti að sækja þau og ákváðu að vera lengur og á eigin kostnað pöntuðu þau sér leigubíl þegar þau vildu fara. Hér að neðan má sjá myndir af vísindaferðinni og stutt samantekt frá nemendum HR.
Nú er bara að vona að þau sæki um hjá TS, þar sem setið er um tölvunarfræðinema í dag. http://www.studentafelag.is/tviund/?p=117

Mýrin

Fjölskyldan hennar Elsu fór á Mýrina í gærkvöldi og ég með að sjálfsögðu. Myndin er mjög góð og mæli ég með henni. Sögusviðið er á suðurnesjum og í Reykjavík. Það var reyndar gaman fyrir okkur Elsu að við keyrðum allt reykjanesið í sumar og þekktum alla þessa staði sem myndin var tekin á. Myndin var vel leikin og fékk ég ekki þennan kjánahroll sem maður fær stundum þegar maður er að horfa á þessar íslensku leiknu kvikmyndir. Það er samt eitt sem fór alveg svakalega í taugarnar á mér. Það er tónlistin, Baltasar féll í sígilda íslenska gryfju. Það er að nota skuggalega íslenska kórtónlist meira minna alla myndina. Það gerði að mínu mati myndina verri. En af 5 stjörnum gef ég henni 3,5(hálf stjarna í mínus fyrir tónlist og svo verður maður að gefa henni hálfa stjörnu því hún er íslensk).

Jæja þarf að fara að vinna.